Fréttir
Mikil tilhlökkun er fyrir námskeiðum vorannarinnar hjá Klifinu. Boðið er upp á fjöldann allan af skapandi námskeiðum og skemmtilega hreyfingu í vor. Skráning er hafin og hefjast fyrstu námskeiðin strax í lok janúar en önnur aðra vikuna í febrúar.
Nýr verkefnastjóri
Rebekka Sif Stefánsdóttir, söngkona og söngkennari Klifsins til margra ára, kom til okkar nú í byrjun janúar sem verkefnastjóri. Hún hefur séð um Skapandi sumarfjör Klifsins frá upphafi og kennt vinsæl söngnámskeið bæði fyrir börn og fullorðna. Hún er einnig menntuð í bókmenntafræði og ritlist og starfar sem stundakennari í ritlist í Háskóla Íslands. Hún kemur full orku og tilhlökkunar til starfsins og mun starfa við hlið Guðrúnar Ýrar þegar hún kemur úr fæðingarorlofi.
Mikið úrval í myndlistinni
Mikið úrval er til staðar í myndlist fyrir bæði börn og fullorðna. Fullorðinsnáskeiðin sem kennd eru af Jens Júlíussyni eru á sínum stað, Akrýlmálun, Vatnslitun, Teikning og Módelteikning. Einnig er boðið upp á Erótíska teikningu sem Sirrý Margrét kennir á föstudagskvöldum. Fyrir börnin bjóðum við upp á Málun og teikningu bæði fyrir 7-9 ára og 10-12 ára. Einnig fyrir þau sem hafa áhuga á myndasögum og teiknimyndum er boðið upp á Persónusköpun fyrir teiknimyndir þar sem börnin læra að skapa og teikna stórkostlegar söguhetjur.
Sköpun í fyrirrúmi
Leiklistarnámskeið í samstarfi við Leynileikhúsið eru á sínum stað og hefjast aðra vikuna í febrúar. Tónlistarnámskeiðin okkar sívinsælu eru auðvitað líka opin fyrir skráningar. Einkatímar í píanó, gítar, trommum og söng eru á boðstólnum en einnig bjóðum við upp á hópnámskeið í gítar og söng. Söngur og sjálfstyrking fyrir 8-11 ára er sniðugt námskeið fyrir börn sem elska að syngja og vilja efla sjálfstraustið í leiðinni í gegnum skapandi aðferðir. Einnig er boðið upp á námskeið fyrir unga söngfugla, 5-7 ára, þar sem lögð er áhersla á framkomu, einsöng, samsöng og tónlistarsköpun. Það sem gerir söngnámskeiðin okkar einstök er að börnin fá tækifæri til að semja lag undir leiðsögn Rebekku Sifjar söngkennara.
Hressandi hreyfing
Aqua Zumba og Tabata námskeiðin með Kristbjörgu verða á sínum stað ásamt slakandi H.A.F Yoga sem inniheldur teygjur og jógaflæði í vatni. Einnig er hægt að skrá sig í badminton í góðra vinahópi í íþróttamiðstöð Sjálandsskóla. Tilvalin hreyfing fyrir fjölskyldur og vinahópa.
Fylgist með okkur!
Við erum virk á samfélagsmiðlunum okkar, Facebook og Instagram en við erum einnig með regluleg fréttabréf og uppfærslur hér á heimasíðunni okkar. Við hjá Klifinu erum ótrúlega spennt fyrir því að sjá ykkur í vor!