Fréttir
Skapandi sumarnámskeið hefjast brátt!
- 05/16/2022
- Posted by: admin42
- Category: Barna- og unglinga Börn- og unglingar
Nú styttist loksins í sumarið! Klifið er með fjölbreytt úrval af skapandi námskeiðum líkt og síðustu sumur og hlökkum við að taka bráðlega á móti kátum krökkum. Námskeiðin verða haldin í hvítu útihúsunum við Hofstaðaskóla og í rými Klifsins á Garðatorgi 7. Þetta sumarið eru í boði námskeið með áherslu á leiklist og dans, söng, myndasögur, teikningar, jóga, náttúru, myndlist og spjaldtölvuvísindi. Námskeiðin hefjast um miðjan júní og teygja sig inní júlí áður en við tökum stutt sumarfrí, en í fyrsta sinn bjóðum við einnig upp á námskeið í ágústmánuði.
Skapandi sviðslistir
Við erum með nokkur námskeið sem þjálfa börn í framkomu og efla sjálfstraust þeirra á sviði. Fyrir unga söngvara erum við með Skapandi sumarsöng undir stjórn Rebekku Sifjar söngkennara. Fyrir litla leikara erum við með námskeiðin Leiklist & dans og Leikrit verður til sem verða kennd af Helenu Hafsteinsdóttur leikkonu. Svo verður líka í boði námskeiðið Leikgleði og fjör sem Bára Lind, leikkona og jógakennari, kennir. Hún sér einnig um námskeiðið Útvera og jóga þar sem krakkarnir munu fá að kynnast jógastöðum sem tengjast dýralífinu, syngja möntrur og prófa öndunaræfingar.
Fjölbreytt myndlistarnámskeið
Fyrir börn sem heillast af myndlist bjóðum við upp á Skapandi sumarteikningar og Myndasögugerð þar sem Hildur Lára, myndlistakona, leiðir börnin í gegnum skemmtileg og skapandi verkefni til að auka teiknifærni þeirra. Björk Viggósdóttir, myndlistakennari, verður með námskeiðin Ævintýri og upplifun fyrir 6-9 ára og Vísindi, spjaldtölvur og umhverfið fyrir 8-12 ára líkt og síðustu ár.
Hægt er að fá nánari upplýsingar um þessi skemmtilegu námskeið hérna á síðunni en einnig er hægt að fylgjast með starfinu á bæði facebook og instagram síðu Klifsins.