Fréttir
Klifið 10 ára
Nú í haust eru 10 ár frá því að Klifið hóf starfsemi sína sem markar 10 ár af skapandi starfsemi í Garðabæ. Í gegnum árin hafa ógrynni af nemendum komið til okkar á námskeið, stutt sem löng, og aukið þekkingu sína í skapandi greinum. Hvort sem það er í myndlist, tónlist, hreyfingu eða vísindum. Námskeiðin telja á hundruðum sem haldin hafa verið á okkar vegum. Við erum stolt af því að vera hluti af menningarflóru Garðabæjar og að hafa virkt sköpunargáfu bæjarbúa og nær umhverfis.
Haustið 2020
Námskeiðin hjá okkur hafa alltaf verið smá í sniðum og njótum við góðs af því á þessum tímum. Í haust ætlum við að leggja áherslu á þau námskeið sem hafa notið vinsælda hjá okkur ár eftir ár og mætti segja að væri kjarni starfsins.
Í október verða tvö helgarnámskeið haldin í stuttmyndagerð undir leiðsögn Gunnars Björns sem m.a. leikstýrði Ömmu Hófí sem sýnd er í kvikmyndahúsum þessa dagana við góða undirtektir.
Enn heldur skráningin í tónlistarnámið hjá okkur áfram að ná nýjum hæðum en mikil aðsókn hefur verið í einkatímana hjá okkur í hljóðfæraleik og söng. Mikil aukning hefur verið í tímum fyrir fullorðna og fögnum við því að fólk komi og sé óhrætt við að virkja sönghæfileika sína. Í haust ætlum við einnig að bjóða upp á raftónlistarkennslu í spjaldtölvum, þar sem lært verður að vinna með forrit líkt og Garageband.
Myndlistarnámskeiðin okkar hafa fengið frábærar viðtökur, hvort sem um ræðir fyrir börn eða fullorðna. Í haust verður ríkulegt úrval af teikni- og myndlistarnámskeiðum fyrir fullorðna, ásamt því að við bjóðum m.a. upp á teikningu, sögugerð & teikningu og spjaldtölvumyndlist fyrir yngri kynslóðina.
Leiklistin verður á sínum stað í Flataskóla í samstarfi við Leynileikhúsið en það er hægt að segja að það sé ákveðinn hápunktur að mæta á sýningu leiklistarinnar í lok annar, því ár eftir ár koma frábærir krakkar og sýna okkur hæfileikana sem leynast í samfélaginu okkar. Í haust munum við bjóða upp á námskeið frá 2. – 3. bekk, 4. – 5. bekk og 6. – 8. bekk.
Það verður gleði og fjör hjá okkur í haust og við hlökkum til að taka á móti ykkur öllum. Endilega kynnið ykkur námskeiðisframboðið inn á vefnum okkar, www.klifid.is.