Fréttir
Sjálfsrækt á skapandi námskeiðum
Brátt líður að lokum sumars og haustið tekur við með tilheyrandi annríki, vinnu, skóla og öðrum skyldum. En það má ekki gleyma að rækta sjálfan sig og áhugamálin sem lífga upp á skammdegið. Hægt er að leysa sköpunarkraftinn úr læðingi á námskeiðum Klifsins en við erum mjög stolt af haustdagskránni okkar sem inniheldur fjöldann allan af myndlistarnámskeiðum, tónlistarnámskeiðum og hressandi hreyfingu. Skráning er nú þegar hafin og byrja námskeiðin upp úr miðjum september.
Tónlist fyrir öll!
Fyrir tónlistarunnendur bjóðum við upp á einkatíma í gítar, píanó, trommum og nú í fyrsta sinn, ukulele! Einnig eru söngnámskeiðin á sínum stað, bæði einkatímar fyrir 7-13 ára, Complete Vocal Technique tímar fyrir unglinga og fullorðna og að lokum vinsælu hópnámskeiðin fyrir 5-7 ára og 8-11 ára. Það sem gerir söngnámskeiðin okkar einstök er að börnin fá tækifæri til að semja lag undir leiðsögn Rebekku Sifjar tónlistarkonu og söngkennara.
Leikglaðir krakkar í 2.-8. bekk fá svo tækifæri til þess að fá útrás í spuna og á sviði á Leiklistarnámskeiðum Klifsins sem fara fram í Flataskóla.
Málun, myndasögur og teikning
Framboðið okkar á myndlistarnámskeiðum fyrir börn og unglinga er alveg stórglæsilegt í haust en við höfum fengið til liðs við okkur nýjan kennara, Ara Arnaldsson teiknara, og svo snýr Hildur Lára Sveinsdóttir, stafrænn hönnuður og teiknari, aftur til okkar en hún hefur kennt gífurlega vinsæl sumarnámskeið hjá okkur í myndasögugerð og teikningu síðustu tvö sumur. Hildur verður með Hreyfimyndagerð fyrir 10-12 ára, Myndasögugerð og persónusköpun fyrir 8-12 ára og Myndlist og málun fyrir 10-12 ára. Ari kemur til með að henna Teikningu fyrir 10-12 ára og Myndasögur og skopmyndir fyrir 12-15 ára. Einnig verður Rannveig Jónsdóttir myndlistarkennari með Málun og teikningu fyrir 7-9 ára líkt og á síðustu önn.
Fullorðna fólkið hefur auðvitað líka úr mörgu að velja en námskeiðin hans Jens Júlíussonar myndlistarkennara verða á sínum stað líkt og síðustu ár. Hann mun kenna teikningu, vatnslitun, akrýlmálun og módelteikningu.
Hressileg líkamsþjálfun
Aqua Zumba og Tabata námskeiðin með Kristbjörgu verða á sínum stað ásamt slakandi H.A.F Yoga sem inniheldur teygjur og jógaflæði í vatni. Einnig er hægt að skrá sig í badminton í góðra vina hópi í íþróttamiðstöð Sjálandsskóla. Vellirnir eru alltaf fljótir að fara því þetta er tilvalin hreyfing fyrir fjölskyldur og vinahópa.
Fylgist með okkur!
Við erum virk á samfélagsmiðlunum okkar, facebook.com/klifid og instagram.com/klifid en við erum einnig með reglulegar færslur á heimasíðunni okkar www.klifid.is. Við hjá Klifinu erum ótrúlega spennt fyrir því að sjá ykkur í haust!
Hlýjar kveðjur,
Rebekka Sif og Guðrún Ýr