Fréttir
Klifið hefur átt í farsælu samstarfi við töframanninn Einar Mikael á undanförnum árum. Samstarf Klifsins og Einars hóst árið 2011 þegar Einar Mikael hélt námskeið í Klifinu við góðar undirtektir. Í vor var galdranámskeið Einars Mikaels aftur sett á dagskrá í Klifinu og það er skemmst frá því að segja að það varð uppselt á námskeiðið á örskotsstundu og bæta þurfti við aukanámskeiði til að anna eftirspurn. Ljóst er að Einar Mikael á dyggan hóp aðdáenda sem kann vel að meta það þegar töframaðurinn setur upp námskeið sem þetta.
Á námskeiðinu lærðu börnin undirstöðuatriði í töfrabrögðum, einfalda og skemmtilega spilagaldra, hugsanalestur og sjónhverfingar. Þau fengu innsýn inní hinn dularfulla heim töframanna. Það var hins vegar ekki laust við að nokkur þeirra ættu erfitt með sig þegar þau mættu í fyrsta tímann. Návígið við töframanninn var nánast yfirþyrmandi fyrir sum hver. En sem betur fer voru þau fljót að jafna sig, enda Einar Mikael einstakt ljúfmenni með góða nærveru.
Námskeið sem þetta hefur margar jákvæðar hliðar. Börnin læra að galdra en svo er önnur hlið á námskeiðinu sem vert er að segja frá. Námskeiðið veitir börnunum aukið sjálfstraust og styrkir mannleg samskipti. Börnin læra meðal annars að setja upp sína eigin töfrasýningu og fá að hugsa um og sjá alvöru töfradúfur!