Fréttir
Fjölbreytt námskeið og sköpunargleði í Klifinu
- 07/14/2020
- Posted by: admin42
- Flokkur: Fréttir
Nú er enn einu skapandi sumri lokið í Klifinu! Í sumar vorum við með fjölbreytt námskeið fyrir börn á aldrinum 6-12 ára og voru þau haldin í hvítu útihúsunum við Hofstaðaskóla.
Þetta sumarið vorum við með þrjá kennara, þær Rebekku Sif, Silju Rós og Björk Viggósdóttur.
Rebekka Sif kenndi Skapandi sumarsöng þar sem börnin fengu þjálfun í söng og framkomu ásamt því að semja lag og halda tónleika.
Silja Rós kenndi bæði leiklistarnámskeið og jóganámskeið sem var nýjung í sumar. Í Leikrit verður til bjuggu börnin til leiksýningu út frá spuna og áhersla var lögð á sköpun og leikgleði. Í Leiklist og dans unnu börnin með leiksenur og bjuggu til dansa. Námskeiðið endaði á sýningu á afrakstri vikunnar. Í Útivist og jóga lærðu börnin mismunandi jógastöður, möntrur og stunduðu hugleiðslu ásamt því að eyða miklum tíma úti í náttúrunni í skemmtilegum leikjum.
Björk leiðbeindi krökkunum á fjölbreyttu myndlistarnámskeiðunum Ævintýri og upplifun og Vísindi, umhverfið og spjaldtölvulist. Í Ævintýri og upplifun var náttúran notuð sem innblástur og efniviður fyrir fjölbreytt listaverk. Unnið var með teikningar, vatnslistaverk og skúlptúra. Í Vísindi, umhverfið og spjaldtölvulist var unnið á skapandi hátt með umhverfisvísindi og spjaldtölvur. Börnin gerðu StopMotion myndir, sköpuðu tónlist og teiknuðu í spjaldtölvunum.
Klifið er gífurlega þakklátt fyrir annað frábært sumar en innan skamms hefst skráning á haustnámskeiðin sem eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Við munum bjóða upp á söngnámskeið, leiklist og dans, píanó- og gítartíma, fjölbreytt myndlistanámskeið og ýmislegt annað. Við hvetjum áhugasama til að kynna sér framboðið inn á www.klifid.is.
Listakveðjur,
Rebekka Sif og Guðrún Ýr hjá Klifinu