Fréttir
Opnað hefur verið fyrir skráningar á vornámskeið í Klifinu. Hægt verður að næra ímyndunaraflið og sköpunarkraftinn á marga vegu í Klifinu þessa önnina. Einkatímar í hljóðfæraleik hafa aldrei verið eins vinsælt líkt og nú er orðið fullt í einkakennslu fyrir vorönn, við tökum því fagnandi að svo margir sækji í tónlistana, fólk á öllum aldri.
Ný námskeið í Klifinu:
Sirkusnámskeið og Capoeira
Á þessari önn bætast við ný námskeið í Klifinu svo sem Sirkusnámskeið sem kennt er í samstarfi við Æskusirkus, Sirkus Íslands, virkilega spennandi námskeið fyrir krakka á aldrinum 7-9 ára og hins vegar 10-12 ára. Þar fá krakkarnir að kynnast hinum ýmsu greinum sirkuslistarinnar. Við stefnum einnig að Capoeira námskeið fyrir yngri nemendur á aldrinum 5-7 ára.
Ný námskeið í myndlist
Á þessari önn er mikil orka í myndlistardeildinni okkar, nokkur ný námskeið fara af stað í bland við þau sem áður hafa verið. Þar má t.d. nefna módelteikningu fyrir fullorðna sem kennd er af Jens Júlíussyni sem hefur sinnt myndlistarkennslu hjá okkur fyrir fullorðna frá því í fyrra og fengið mikið lof frá nemendum.
Boðið verður upp á fjöltækni í myndlist fyrir 10-12 ára, fyrir þá sem vilja kynna sér ýmsar hliðar myndlistarinnar en á sama tíma verðum við með teikninámskeið fyrri 10-12 ára og 13-16 ára sem kennd eru af Söndru Rós en við finnum fyrir miklum áhuga fyrir teikningu og tökum því fagnandi.
Fjölmargt í boði
Fjölmörg námskeið hafa verið haldin ár hvert í Klifinu og alltaf notið vinsældar.
Leiklist: Klifið er í samstarfi við Leynileikhúsið. Það er ávallt mikil leikgleði á leiklistarnámskeiðunum og enda þau ávallt með því að nemendur setja upp leiksýningu á sviði. Í vor fara námskeiðin fram í Flataskóla líkt og undanfarin ár.
Söngur: Í vor verður boðið upp á grunnnámskeið í söng fyrir krakka á aldrinum 5-7 ára en einnig framhaldsnámskeið fyrir þann aldurshóp. Einnig verður námskeið í Popp söng fyrir 10-13 ára, allt undir leiðsögn Rebekku Sif sem sér einnig um einkakennslu í söng hjá okkur í Klifinu.
Myndlist: Grunnteikning og vatnslitun fyrir fullorðna naut mikilla vinsælda hjá okkur í fyrra og förum við af stað með þau námskeið á vorönn ásamt ýmsum spennandu námskeiðum fyrir krakka, spjaldtölvumyndlistarnámskeiðið hjá okkur naut mikilla vinsælda á haustönninni þegar það var frumreynt og förum við af stað með það í annað sinn fyrir krakka á aldrinum 10-12 ára.
Hreyfing fyrir fullorðna: Aqua Zumba hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár hjá okkur undir leiðsagnar Kristbjargar Ágústsdóttur, fullt hefur verið á námskeiðin síðustu ár og stór og góður hópur kvenna hefur myndast í kringum námskeiðin. Nú ætlum við aftur á móti að bjóða upp á nýjung Aqua Tabata sem hefst laugardaginn 12. Janúar og bjóðum við öllum sem vilja að spreyta sig að mæta kl 11:10 í laugina í Sjálandsskóla.
Fullt var í Badminton hjá okkur á síðustu önn, en enn eru nokkrir lausir vellir á þessari önn. Alltaf gaman að koma saman og hreyfa sig með vinum og fjölskyldu.
Það verður vissulega nóg í boði fyrir börn og fullorðna í Klifinu á árinu.