Fréttir
Nýr vefur Klifsins og skapandi vorönn framundan
- 01/11/2012
- Posted by: admin42
- Category: Fréttir
KLIFIÐ fræðslusetur er nú að hefja sínu fjórðu önn þökk sé áhugasömum Garðbæingum um skapandi menningu. Nýr vefur Klifsins lítur dagsins ljós í vikunni. Leitar-og skráningarkerfi hefur verið endurbætt þannig að viðskiptavinir ættu nú að eiga auðveldara með að átta sig á hvað er í boði hverju sinni. Í vor verður sem fyrr fjöldi námskeiða fyrir allan aldurshóp.
Börnin
Börnin geta valið úr myndlist, tónlist, tölvuleikjaforritun, leiklist, töfrabragða, stuttmyndagerð, kajaknámskeiða o.fl.
Kynslóðanámskeið
Klifið býður upp á námskeið þar sem afar og ömmur eða foreldrar geta komið með börnum sínum og átt ómetanlegar samverustundir meðan þau læra að tálga í tré eða hekla frjálst skapandi hekl. Eins geta fjölskyldur með börn 12 ára og eldri farið á kajaknámskeið.
Fyrir fullorðna
List og handverksnámskeið verða í farabroddi á vorönn. Meðal nýjunga á vorönn má nefna námskeið þar sem kennt verður hvernig hægt er að vefa úr kaffipokum fínustu veski. Einnig mun Bergrós Kjartansdóttir, einn vinsælasti prjónahönnur landsins, kenna og segja frá prjónaverkunum Heimsljósi, Norðurljósi og fleiri verkum sem hún hefur hannað fyrir prjónablaðið Lopa. Skreytilistarnámskeið Auskúla munu halda áfram en þar verða kenndar aðferðir sem gefa nýjum sem gömlum hlutum svokallað “shabby chic” útlit. Önnur námskeið á vorönn verða sushinámskeið, myndabandagerð, kajak veltinámskeið í sundlaug, tölvunámskeið fyrir eldri borgara í samvinnu við félag eldri borgara í Garðabæ, gítar og trommunámskeið, heklnámskeið og fjölda annarra námskeiða.
Badmintonið hefur verið vinsælt og nú munu einnig bjóðast tímar á daginn í Ásgarði. Í badmintoninu hittast fjörugir vinahópar í viku hverri og spila af öllum krafti með mikilli gleði. Örfáir tímar eru lausir í Sjálandsskóla fyrir áhugasama en vissara er að hafa hraðar hendur því þeir bókast fljótt.
Hamingjuríkara líf
Við hvetjum alla til að hlúa að sjálfum sér, með því að taka frá tíma og gera eitthvað sem nærir sál og líkama. Við trúum því að það auki hamingju fólks að eiga sér áhugamál, setja sér markmið og að leita sér stöðugt nýrrar þekkingar. Við vonumst til að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi og hvetjum fólk til að kynna sér úrval spennandi námskeiða á vefnum okkar eða skoða myndir á Facebook síðu Klifsins.