Fréttir
Skólaárið 2014 – 2015 tekur Klifið þátt í þróunarverkefninu Frá frumkvæði til framkvæmdar ásamt Flataskóla, Garðaskóla, Félagi kennara í nýsköpunarmennt (FNF), Menntavísindasviði HÍ og sérfræðingunum Dr. Rósu Gunnarsdóttur, Dr. Svanborgu R. Jónsdóttur og Ástu Sölvadóttur, en þær hafa sérhæft sig í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt.
Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt er námsgrein sem brýtur niður veggi í menntun og samþættir verklega færni og þekkingu úr ýmsum námskgreinum.
Unnið verður með starfsmönnum á yngsta, og miðstigi í Flataskóla og starfsmönnum á unglingastigi í Garðaskóla þar sem starfsmennirnir ganga í gegnum skapandi vinnuferli sem byggir á kennslufræði nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar. Notast verður við aðstæður í skólunum sjálfum við þjálfun starfsfólksins og einnig verður Fab Lab í Breiðholti heimsótt.
Þróaðar verða leiðir til að hæfni í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt sé felld inn í kennslu og námsferlið í skólunum. Stuðlað verður að þverfaglegri samvinnu námsgreina þvert á hefðbundnar kennslugreinar. Þróaðar verða nýjar vinnuaðferðir, hæfni og tækni og mynduð teymi NFM kennara innan skólanna.
Þátttakendur í verkefninu munu meðal annars taka þátt í námsefnisþróun Litla uppfinningaskólans í Klifinu. Nemendur og kennarar munu prufukeyra námsefnið með sínum nemendahópum og kennarar fá þjálfun í að tileinka sér eflandi kennsluaðferðir NFM.