Fréttir
Í vikunni lýkur fjórða starfsári Klifsins skapandi fræðsluseturs í Garðabæ. Við endum viðburðarríkt vetrarstarfið með kassabílaralli, sólarskoðun, hlutverkaleikjum og dansi.
Á undanförnum árum hefur hugmyndafræði Klifsins verið í stöðugri mótun og þróun. Klifið er fræðslusetur sem leggur áherslu á fjölbreytt og skapandi námskeið og er sérstaða Klifsins á sviði nýsköpunar og skapandi greina. Áhersluatriði Klifsins eru að virkja sköpunargáfu þátttakenda á fjölbreyttan hátt og býður Klifið upp á skapandi námskeið m.a. í myndlist, tónlist, dansi, leiklist, vísindum, spuna, sjálfstyrkingu, handverki o.fl.
Hugmyndafræði Klifsins byggir á kenningum um hæfniþróun og kenningum um nám. Mikil alúð hefur verið lögð í allt uppbyggingarstarf Klifins, jafnt varðandi hæfa leiðbeinendur, námskeiðsframboð, þróun námskeiða, fræðsluhönnun og markaðsstarf. Klifið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að bjóða upp á úrvals leiðbeinendur og þróa námskeið og námsefni í samstarfi við leiðbeinendur hverju sinni.
Hundruðir viðskiptavina taka þátt í starfi Klifsins á ári hverju, og hefur fjöldi þeirra farið vaxandi með hverri önn. Ávallt hefur verið lögð áhersla langtímahugsun í öllu starfi Klifsins, þar á meðal námskeiðsframboði.
Við þökkum viðskiptavinum okkur og frábærum leiðbeinendum fyrir samstarfið í vetur og hlökkum til áframhaldandi samstarfs næsta haust. Við minnum á sumarnámskeið Klifsins sem verða í júní og águst.
Kveðja,
Ásta og Ágústa