Fréttir
Fyrir krakka sem vilja dansa sér til skemmtunar
- 08/29/2017
- Posted by: admin42
- Category: Fréttir
Júlí Heiðar Halldórsson dansari, leikari og tónlistarmaður er nýtekinn við með yfirumsjón hjá dansdeild Klifsins. Hann leggur áherslu á að nemendur komi í tíma til þess að dansa sér til skemmtunar. Nokkur námskeiðanna innihalda ekki bara dans heldur einnig framkomu- og leiklistaræfingar segir Júlí Heiðar. Í þeim námskeiðum er sköpunin í miklu fyrirrúmi og fær nemandinn að spreyta sig á að semja sína eigin dansa. Dansdeildin leggur ekki áherslu á að búa til meistara heldur viljum við að krakkarnir komi til þess að njóta og hafa gaman. Júlí Heiðar mun sjálfur kenna námskeið fyrir stráka og stelpur á aldrinum 10-16 ára.
Núna í haust bættist Höskuldur Þór Jónsson dansari til liðs við kennarateymið. Höskuldur er margreyndur dansari sem hefur dansað frá fimm ára aldri. Hann hefur mikla reynslu af því að dansa á sviði og hefur meðal annars dansað í sýningunum Mamma Mia, Billy Elliot og Footloose. Höskuldur ásamt Olgu Ýr munu kenna krökkum frá 6-10 ára fjölbreytta dansstíla s.s. Hip hop, break, modern og jazz. Auk þess ætlar hann að vera með fjörugt námskeið fyrir 5-7 ára stráka þar sem frjáls dans og dansgleðin er í fyrirrúmi. Klifið verður sem fyrr með ballett og leikræna tjáningu yfir 3-6 ára börn, en barnaballettinn hefur notið mikilla vinsælda ár eftir ár í Klifinu.
Við hvetjum Garðabæinga til að kíkja á nýja vefinn okkar: www.klifid.is og skoða úrvalið. Dagskrá haustsins er fjölbreytt sem fyrr og aldrei að vita nema sköpunarmátturinn þinn leysist úr læðingi í ár.