Fréttir
Skólaárið 2013 – 2014 eru tvö verkefni einkum í forgrunni í Menntaklifinu. Það er annars vegar Sprotasjóðsverkefnið Jafnrétti, kynheilbrigði og velferð á öllum skólastigum í Garðabæ og hins vegar Comenius Regio samstarfsverkefni grunnskólanna í Garðabæ, Fjölbrautaskólans í Garðabæ og Klifsins við breska sveitarfélagið Southend-on-Sea. Í þessum tveimur verkefnum er samstarf skólafólks og fagfólks sem vinnur með börnum í Garðabæ útvíkkað enn frekar, bæði innan sveitarfélagsins og með fagfólkinu í Englandi.
Jafnrétti kynheilbrigði og velferð á öllum skólastigum í Garðabæ
Verkefnið á rætur að rekja til vitundarvakningar velferðaráðuneytisins um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum frá árinu 2012. Hópur áhugafólks þvert á skólasamfélagið hefur unnið að þessu verkefni í þremur hópum á þessu skólaári, en verkefnið er til tveggja ára. Í vetur fer fram undirbúningsvinna og á næsta skólaári mun innleiðing verkefnisins eiga sér stað. Megin viðfangsefni verkefnisins er að:
– Semja leiðbeiningar um hvaða verkþættir eiga að vera til staðar í skólanámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla, félagsmiðstöðva, frístundamiðstöðva, tómstunda- og íþróttafélaga í Garðabæ.
– Semja verk- og viðbragðsáætlun gegn kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi gegn börnum.
– Gera starfendarannsókn innan skólasamfélagsins á innleiðingu verkefnisins. Þar mun samráðshópur kennara og annarra starfsmanna byggja upp þekkingu og reynslu á þessu sviði.
Fjögurra manna stýrihópur heldur utan um verkefnið og hefur yfirumsjón með hópnum og verkefninu í heild. Hlutverk Menntaklifsins er að sjá um skýrslugerð, eftirfylgni og mat á framkvæmd verkefnisins.
Lykilhugtök verkefnisins
Comenius Regio samstarfsverkefni Garðabæjar og Southend-on-Sea
Skólaskrifstofa Garðabæjar, grunnskólar Garðabæjar, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ og Klifið skapandi fræðslusetur taka þátt í 2 ára verkefni með skólaskrifstofu Southend-on-Sea og Shouburyness High school. Þróun og framfarir verða í brennidepli í verkefninu. Ætlunin með samstarfinu er að læra og þróa aðferðir í skólastarfi sem gera kennurum kleift að mæta hverjum og einum nemenda með krefjandi og áhugaverðum verkefnum og hámarka árangur hvers og eins. Sérstök áhersla er á að vinna með áhugahvöt drengja, draga úr brottfalli og auka áhuga nemenda af báðum kynjum á stærðfræði, náttúruvísindum og tæknimennt. Í ljósi umræðna um styttingu náms til stúdentsprófs þykir starfsfólki skóla og skóladeildar áhugavert að leita leiða til þess að stuðla að framförum nemenda og auka um leið möguleika þeirra í lífinu. Í verkefninu verður athugað hvort og þá hvað skortir á eðlilegan námshraða og áskoranir í námi á mismunandi skólastigum og á milli skólastiga og hvernig megi auka ástundun nemenda allan þeirra námstíma. Sjá frétt um verkefnið á vef Garðabæjar. Menntaklifið sér um verkefnastjórn í verkefninu og sér um að leiða saman fagfólk í skólasamfélaginu í Garðabæ og í Bretlandi.