Fréttir
Starfssamfélög og samfélagsmiðlar í skólastarfi
- 10/14/2012
- Posted by: admin42
- Flokkur: Fréttir
Í byrjun október sóttu Ágústa og Ásta leiðtogasmiðju um starfssamfélög og samfélagsmiðla hjá Etienne og Beverly Wenger-Trayner í Skálholti. Fræðimennirnir tveir sem reyndar eru hjón, eru einna þekktastir fyrir hugmyndir sínar um starfssamfélög og nýtingu félagsmiðla við uppbyggingu og þróun samstarfsneta (e. Communities of practice and social learning spaces).
Wenger-Trayner hafa meðal annars þróað gagnlegar aðferðir til þess að byggja upp þekkingu innan fyrirtækja, stofnana og samtaka víða um heim. Aðferðir þeirra byggja á markvissri samvinnu við að móta félagsleg samskipti í hópum (starfssamfélögum) þar sem upplýsingatækni eins og félagsmiðlum er beitt til þess að þátttakendur fái enn meira út úr sameiginlegri vinnu sinni. Hugmyndir þeirra hafa mikið hagnýtt gildi í tengslum við starfsþróun, nám og kennslu.
Í Klifinu erum við að þróa starfssamfélagið Menntaklif í samvinnu við nærsamfélagið í Garðabæ og falla hugmyndir þeirra Etienne og Beverly Wenger-Trayner mjög vel að hugmyndafræði Menntaklifsins. Mikil gerjun á sér stað í menntamálum á Íslandi þessi misserin og eru starfssamfélög í auknum mæli að ryðja sér rúms. Í október 2012 var til að mynda stofnuð svokölluð MenntaMiðja sem er umgjörð utan um grasrótarstarf sem sprottið hefur upp í skólasamfélaginu.
Við í Klifinu viljum taka virkan þátt í þeirri gerjun sem á sér stað í menntamálum hérlendis og er Menntaklifið og samvinna nærsamfélagsins í Garðabæ liður í þeirri vinnu. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá Ágústu og Ástu sitja fyrir svörum í Skálholti, þar sem rætt var um möguleg tækifæri og hindranir Menntaklifs sem lifandi vettvangs skólafólks.
Myndir frá vinnustofunni má sjá hér